Tímamót í orkumálum í Langanesbyggð
Í gær var skrifað undir viljayfirlýsingu sem markar tímamót í orkumálum í Langanesbyggð. Ráðherra umhverfis- orku- og loftslagamála, fulltrúar Rarik og Landsnets skrifuðu undir viljayfirlýsingum þar sem segir að ráðist verði strax í aðgerðir á Norðausturlandi til að auka afhendingargetu og afhendingaröryggi raforku í landshlutanum. Þannig skapast forsendur fyrir aukinni atvinnuuppbyggingu og jákvæðri byggðaþróun á svæðinu til skemmri og lengri tíma. Yfirlýsingin í heild sinni er hér:
Aðgerðir í raforkumálum Norðausturlands
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Landsnet og Rarik lýsa sameiginlegum vilja til þess að ráðast í umbætur í raforkumálum á Norðausturlandi. Markmiðið er að auka afhendingargetu og afhendingaröryggi raforku og skapa forsendur fyrir aukinni atvinnustarfsemi og jákvæðri byggðaþróun í landshlutanum til skemmri og lengri tíma.
Í kjölfar funda umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra með fulltrúum Landsnets og Rarik um aðgerðir til umbóta í raforkumálum á Norðausturlandi hefur samkomulag náðst um eftirfarandi aðgerðir til að styrkja raforkukerfi landshlutans:
Rarik mun styrkja afhendingu raforku á Þórshöfn með 33 kV jarðstreng milli Vopnafjarðar og Þórshafnar. Stefnt er að spennusetningu strengsins árið 2028.
Landsnet mun hraða uppbyggingu nýs tengivirkis á Bakka við Húsavík til að auðvelda tvítengingu Húsavíkur í gegnum Bakka og samhliða því opna á mögulega starfsemi nýrra stórnotenda á iðnaðarsvæðinu. Áætluð verklok eru árið 2028.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið mun hafa forgöngu í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðuneytið um að ríkið styðji við fjárfestingargetu Landsnets og Rarik vegna verkefnanna um 2,2 milljarða króna árið 2026 sem dreifast jafnt milli fyrirtækjanna. Svigrúmið til þess skapast með því að falla frá ráðstöfun fjármuna sem því nemur úr Loftslags- og orkusjóði.
Þessar tvær aðgerðir munu bæta stöðu raforkumála í landshlutanum til skamms tíma og leggja grun að frekari styrkingu svæðisins. Til lengri tíma er nauðsynlegt að byggja 132 kV flutningslínu að Langanesi. Landsnet skuldbindur sig til að setja þá línu inn á langtímaáætlun kerfisáætlunar sem lið í tvítengingu afhendingarstaða og miða við spennusetningu um miðjan næsta áratug. Stjórnvöld munu leitast við að skapa forsendur til þess að flýta megi framkvæmdinni enn frekar, svo sem með því að liðka fyrir frekari orkuvinnslu á svæðinu. Landsnet mun vinna með stjórnvöldum að því markmiði.
Aðgerðir þessar eru í samræmi við stefnumið ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur um að auka orkuöflun, styrkja flutningskerfi og bæta orkunýtni þannig að stutt verði við orkuskipti og verðmætasköpun um allt land.