Þegar hver mínúta skiptir máli – Langanesbyggð fær hjartastuðtæki að gjöf
Nýverið fékk Langanesbyggð góðar gjafir frá velunnurum samfélagsins.
Orkusalan er farin af stað með nýtt verkefni tengt styrktarstefnu sinni sem er að færa Íslandi stuð í bókstaflegri merkingu. Því var hluti úr styrktarsjóði nýttur í að færa völdum stöðum hjartastuðtæki, en slík tæki bjarga mannslífum á hverju ári. Um er að ræða tæki af fullkomnustu gerð en það leiðir notendur áfram á fjórum mismunandi tungumálum þar á meðal íslensku og pólsku.
Þórarinn Þórisson, slökkviliðsstjóri í Langanesbyggð færði Silvíu Jónsdóttur, forstjóra Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Nausts, tækið en það verður staðsett á hjúkrunarheimilinu á Þórshöfn.
Á Bakkafirði voru gefin tvö hjartastuðtæki en Gunnlaugur Steinarsson gaf annað tækið fyrir hönd Brattaness sem er staðsett í hafnarhúsi á Bakkafirði og Hilmar Þór Hilmarsson, fyrir hönd Bjargsins, gaf tæki sem er staðsett í Samfélagsmiðstöð Bakkafjarðar í skólahúsnæðinu.
Samfélagið er innilega þakklátt fyrir þessar gjafir sem geta bjargað mannslífum.