Fara í efni

Stofnun Farsældarráðs Norðurlands eystra

Fréttir
Fulltrúar þeirra hagaðila sem koma að Farsældarráði Norðurlands eystra
Fulltrúar þeirra hagaðila sem koma að Farsældarráði Norðurlands eystra

Í dag 30. október 2025 var Farsældarráð Norðurlands eystra formlega stofnað við hátíðlega athöfn á Akureyri að viðstöddum hæstvirtum mennta- og barnamálaráðherra Guðmundi Inga Kristinssyni sem flutti ávarp af þessu tilefni. Þá voru viðstaddir bæjar- og sveitarstjórar svæðisins og stjórnendur ríkisstofnana og annarra lykilþjónustuveitenda í málefnum barna í landshlutanum. Þá fluttu Lára Halldóra Eiríksdóttir formaður stjórnar SSNE og Þorleifur Kr. Níelsson verkefnastjóri Farsældarráðs Norðurlands eystra ávörp. Þá steig tónlistarkonan Dana Ýr á stokk og spilaði lög sem pössuðu vel við þessi tímamót.

Farsældarráðið er vettvangur sameiginlegrar stefnumótunar og samráðs í samræmi við lög nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Stofnun ráðsins markar upphaf að nýju samtali og aukinni samvinnu á milli þjónustuaðila ríkis og sveitarfélaga. Þar verður lögð áhersla á samþættingu þjónustu í þágu barna – þjónustu sem er samfelld, sveigjanleg og miðar að því að styðja barn í samhengi við líf þess, fjölskyldu og samfélag.

„Við ætlum að hlusta betur – bæði hvert á annað og ekki síst á börnin sjálf,“ sagði Þorleifur Kr. Níelsson, verkefnastjóri Farsældarráðsins Norðurlands eystra, í ávarpi sínu við stofnun ráðsins. „Við ætlum að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann.“

Við athöfnina undirrituðu bæjar- og sveitarstjórar tíu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra (Akureyrarbær, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Langanesbyggð, Norðurþing, Svalbarðsstrandarhreppur og Þingeyjarsveit) samstarfssamning um Farsældarráð Norðurlands eystra. Jafnframt var samstarfsyfirlýsing þjónustuveitenda ríkis o.fl. um þátttöku og samstarf í Farsældarráði Norðurlands eystra undirrituð af forsvarsmönnum SAk, HSN, Lögreglan á Norðurlandi eystra, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Framhaldsskólinn á Laugum, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Framhaldsskólinn á Húsavík og Svæðisstöð íþróttahéraða UMFÍ og ÍSÍ. Í ráðinu verða að auki fulltrúar ungmennaráða og foreldraráða á Norðurlandi eystra.

"Farsældarráð Norðurlands eystra verður vettvangur þar sem við tengjum saman þekkingu, reynslu og úrræði allra þessara aðila — til þess að börnin og fjölskyldurnar okkar finni raunverulega fyrir því að kerfið sé til fyrir þau, ekki öfugt," sagði Lára Halldóra formaður stjórnar SSNE, en með farsældarráðinu verður meðal annars unnin fjögurra ára áætlun um forgangsröðun aðgerða um farsæld barna, stuðlað að markvissri samþættingu kerfa og þjónustu og horft sérstaklega til snemmtækrar íhlutunar og samfélagslegrar forvarna.

„Ég fagna því að hér á Norðurlandi eystra starfi nú fjölmennur og öflugur hópur að því að einfalda það ferli sem börn og fjölskyldur þeirra þurfa að fara í gegnum til þess að fá þá viðeigandi þjónustu. Að hér sé unnið markvisst að því að styrkja samstarf milli þjónustukerfa og stuðla þannig að jöfnum tækifærum allra barna til þátttöku, þjónustu, náms og félagslegrar virkni og velferðar. Með stofnun ráðsins sjáum við áþreifanlegan árangur farsældarlaganna og þá samstöðu sem myndast hefur meðal hinna fjölmörgu aðila sem vinna að farsæld barna í landshlutanum,“ sagði Guðmundur Ingi mennta- og barnamálaráðherra í ræðu sinni – orð sem spegla kjarnann í þessu nýja samstarfi: Að farsæld barna sé sameiginlegt samfélagsverkefni.