Sónarskoðun í fjárhúsi á Gunnarsstöðum
27.september 2007
Eitt af mörgum haustverkum bænda er að velja líflömbin en leið lambanna sem ekki hljóta náð fyrir augum bænda liggur beint í sláturhúsið. Bændur nýta sér nú tæknina við þetta vandasama val en nánast á hverjum bæ fer valið eftir niðurstöðum mælinga úr ómsjá. Ráðunautur mætir í fjárhúsin með ómsjá og í sónarskoðuninni er mæld fita lambanna en einnig þykkt og lögun bakvöðvans. Mælingar eru nákvæmar og þykkur bakvöðvi eftirsóknarverður ræktunareiginleiki. Í Þistilfirði stendur fjárrækt á gömlum merg og lengi hafa verið stundaðar kynbætur á fé en eitt elsta fjárræktarfélag landsins er Þistill.
Ræktun hefur vissulega skilað árangri en í mælingu nú á dögunum mældist bakvöðvi veturgamals hrúts á Gunnarsstöðum 48 mm sem er með því þykkara sem mælst hefur.
Þetta árið virðast ómsjármælingar koma heldur lakari út en undanfarin ár og giska menn helst á þurrka sumarsins sem ástæðu þess. Hrútar koma almennt verr út úr ómmælingu en gimbrarnar og því má velta fyrir sér hvort hvort karlkynið almennt þoli mótlætið verr heldur en hið "veikara" kyn.
Myndir: Sónarskoðun í fjárhúsi á Gunnarsstöðum