Fara í efni

Skýrsla um rekstur hjúkrunarheimilisins Nausts á Þórshöfn

Fréttir

Komin er út skýrsla  sem tekin var saman af Gunnlaugi A. Júlíussyni hagfræðingi um rekstur hjúkrunar- og dvalarheimilisins Nausts á Þórshöfn í Langanesbyggð. Naust er rekið og í eign Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps og hefur rekstrarsamning við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ), en um er að ræða verkefni sem er á ábyrgð ríkisvaldsins.
Skýrslan var tekin saman, að ósk sveitarstjórnar Langanesbyggðar, vegna mikils halla á rekstri heimilisins undangengin þrjú ár, sérstaklega á árinu 2020 og það sem er af þessu ári. Við afgreiðslu ársreikninga Langanesbyggðar fyrir árið 2020 voru afskrifaðar um 46,6 m.kr. sem aðalsjóður Langanesbyggðar hefur lagt til reksturs heimilisins á undangengnum árum.
Af þessum 46,6 m.kr., sem afskrifaðar voru, eru 30 m.kr. tilkomnar vegna hallareksturs á árinu 2020. Framlag íbúa í þeim tveimur sveitarfélögum sem að rekstrinum standa, þ.e. Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps er um kr. 50.000 á mann (!) á einu ári, en í þessum tveimur sveitarfélögum eru um 600 íbúar samtals. Hægt er auðveldlega að leika sér með samanburð við fjölmennari sveitarfélög til að setja þessar tölur í annað samhengi. M.v. um 19.500 íbúa á Akureyri væru þetta um 970-980 m.kr. á einu ári, svo einfalt dæmi væri tekið. Því er óhætt að segja að þessi kostnaður tekur í rekstur sveitarfélaganna hér.
Eins og fram kemur í skýrslunni hefur rekstrarkostnaður almennt verið í jafnvægi á því tímabili sem til skoðunar er og hefur stöðugildum ekki fjölgað sem dæmi, sjá nánari umfjöllun í kafla 4. Það sem hefur haft hvað mestu áhrif er að launakostnaður hefur aukist þrátt fyrir sama starfsmannafjölda, en framlög Sjúkratrygginga hafa ekki fylgt launaþróuninni. Sést það hvað best á mynd 12 bls. 43 þar sem framlög SÍ og launakostnaðar eru borin saman, en laun eru ríflega 80% af rekstrarkostnaði.
Þó ekki sé um ekki stórt heimili, með um 11 hjúkrunarrými og þrjú dvalarrými, þá gegnir Naust mjög mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi. Það skiptir öllu máli fyrir lífsgæði þeirra sem þar dvelja að hafa ættingja og vini nálægt og á sama hátt er það mikilvægt fyrir íbúa að hafa foreldra sína nálægt. Það er því eindreginn vilji íbúa og þeirra sveitarstjórnar sem standa að rekstrinum að halda starfseminni áfram hér á Þórshöfn, en flytja hana ekki t.d. til Húsavíkur eða Akureyrar sem gæti gerst með „hagræðingu“ í rekstri ef ríkisvaldið tæki þennan rekstur alfarið að sér. Hins vegar er það ljóst að þessum rekstri verður ekki haldið úti með þessum hætti mikið lengur áfram.
Það er því mikilvægt fyrir byggðarlagið í heild sinni að tekið sé á þessu og rekstrargrundvöllur hjúkrunar- og dvalarheimila tryggður til framtíðar. Þetta er stærra mál en svo að það sé eins einstaklings eða ráðuneytis að leysa og taka á. Skýrsla hefur verið send þingmönnum kjördæmisins og til viðkomandi ráðherra. Þetta er byggðamál og varðar grundvallarréttindi og sjálfsvirðingu þeirra sem hlut eiga að máli að þessum málaflokki sé vel sinnt. Hér fyrir neðan er tengill á skýrsluna.

Skýrsla um rekstur hjúkrunarhimilisins Naust.