Fara í efni

Rafmagnslaust í morgun í Langanesbyggð. Lítið öryggi í raforkumálum.

Fréttir

Rafmagnslaust varð skömmu eftir kl. 8 í morgun á Þórshöfn, Bakkafirði og í Þistilfirði. Rafmagn komst fljótlega á á Þórshöfn en ekki fyrr en skömmu eftir hádegi í Þistilfirði og á Bakkafirði. Sveitarstjóri leitaði skýringa hjá Rarik á því hvers vegna rafmagnið fór af. Skýringar framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Rarik á rafmagnsleysinu fara hér á eftir. Þetta rafmagnsleysi og bilunin sem varð þess valdandi að rafmagnið fór af er enn ein áminningin um það öryggisleysi sem íbúar í Langanesbyggð búa við í orkuflutningi inn á svæðið. 

Skýringar framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Rarik:

Fyrir hönd RARIK vil ég biðjast afsökunar á þeim óþægindum sem rafmagnsleysið í dag hefur valdið íbúum á Bakkafirði, Þórshöfn og Þistilfirði. Okkur þykir mjög leiðinlegt að þessi staða hafi komið upp og það verður farið vel yfir þessa atburðarás til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig. Við munum einnig taka fund með fulltrúum í sveitarstjórn Langanesbyggðar vegna þessa.
Það eru örugglega ýmsar spurningar sem brenna á íbúum eftir þetta og hér er reynt að svara tveimur þeirra.
Hvers vegna var varaaflstöðin á Bakkafirði lögð niður?
Það er alltaf verið að vega og meta hvernig er best að byggja upp og reka dreifikerfið okkar. Farið var í það verkefni að leggja háspennustreng frá Þórshöfn til Bakkafjarðar og þar með draga úr líkum á bilunum á tengingunni milli Þórshafnar og Bakkafjarðar. Vélin á Bakkafirði var komin mjög til ára sinnar og þurfti endurnýjunar við. Það var þá ákveðið að auka frekar varaaflið á Þórshöfn og ná þannig að dekka Þórshöfn, Þistilfjörð og Bakkafjörð með því varaafli og fá inn viðbótar magn frá því sem fyrir var. Hvað heildina varðar þá teljum við þetta betri lausn en við skiljum auðvitað að þetta veki neikvæð viðbrögð hjá ykkur, sérstaklega þegar svona atburður kemur upp eins og gerðist í dag. Allt varaafl okkar er prufukeyrt í hverjum mánuði til að hámarka líkur á að allt sé í lagi þegar á þarf að halda.
Hvað gerðist í dag?
Aðgerðin i dag var skipulagt viðhald hjá okkur. Skipta þurfti um spenni í aðveitustöð Silfurstjörnunnar. Til að vinna þá aðgerð þá þurfti að taka út Kópaskerslínu 1 sem er fæðing inn á svæðið frá Tjörnesi til Bakkafjarðar. Ekki átti að verða rafmagnsleysi vegna þess (einhverjir keyrðu niður álag) þar sem við keyrum varaafl í Lindarbrekku, Kópaskeri, Raufarhöfn og á Þórshöfn. Þegar aðgerðir voru byrjaðar þá kom upp bilun tengd varaaflsstöðinni á Þórshöfn sem kom okkur í opna skjöldu. Það var því ekki hægt að samfasa stóru vélina okkar inn með þeim afleiðingum að hluti Þórshafnar, Þistilfjörður og Bakkafjörður urðu rafmagnslaus. Rafmagn kom aftur á klukkan rúmlega 13.

F.h. RARIK
Helga Jóhannsdóttir
Framkvæmdastjóri Rekstrarsviðs