Fara í efni

Nýr verkefnisstjóri "Betri Bakkafjarðar"

Fréttir

Eins og fram hefur komið áður hefur verið ákveðið að halda verkefninu "Betri Bakkafjörður" áfram út árið 2024. Byggðastofnun leggur verkefninu til fjármuni úr Brothættum byggðum líkt og verið hefur undanfarin ár og eru þau framlög nýtt til verkefnastjórnunar og til að styrkja framfaraverkefni íbúa.

Gunnar Már Gunnarsson, sem sinnt hefur verkefninu lét af störfum um síðustu áramót og var staðan því auglýst fyrr í vetur. Gunnar hefur staðið vaktina í tvö og hálft ár og mikill árangur hefur náðst af starfi hans sem verkefnastjóra. Hann hefur sinnt því af miklum áhuga og alúð og á miklar þakkir skildar fyrir störf sín fyrir samfélagið á Bakkafirði og fyrir sveitarfélagið Langanesbyggð í heild. En Gunnar fer ekki lagt því við vonumst til að fá hann í nokkur verkefni sem við höfum í vinnslu varðandi innviði í sveitarfélaginu. Það skýrist á næstu vikum hvernig þeim störfum verður háttað.

Nú hefur verið gengið frá ráðningu nýs verkefnisstjóra og bjóðum við hana Romi Schmitz velkomna til starfa, um leið og við þökkum Gunnari fyrir vel unnin störf.

Romi er fædd og uppalin í Þýskalandi en er búsett á Þórshöfn, Langanesbyggð. Hún er með BA gráðu í norrænum fræðum og sagnfræði frá háskólanum í Bonn og starfaði þar á skrifstofu skólans áður en hún flutti til Íslands. Síðan hún lauk námi hefur hún m.a. sinnt íslenskukennslu fyrir þýska hópa og einstaklinga og skipulagt námsferðir til Íslands. Romi þekkir vel til í Langanesbyggð og hefur til að mynda gengið í bústörf bæði í Þistilfirði og á Langanesströnd. Fyrr á þessu ári tók Romi þátt í fyrirtækjasmiðju á vegum Atvinnumála kvenna og hlaut þar fyrstu verðlaun fyrir verkefni sitt, sem gekk út á staðbundna framleiðslu og sjálfbærni á norðausturhorni landsins.

Aðspurð segist hún brenna mjög fyrir sitt heimasvæði og koma inn í verkefnið með mikinn áhuga og metnað – og hugmyndir í þágu Bakkafjarðar. Íbúar hafi staðið sig vel í að koma framfaramálum í framkvæmd og margt jákvætt áunnist.

Starfsstöð Romi verður á Bakkafirði og í Kistunni, Þórshöfn. Hún verður með viðtalstíma á Bakkafirði þriðjudaga og fimmtudaga frá 8:30 til 13:00 og oftar ef þurfa þykir en einnig er hún með starfsaðstöðu í Kistunni á Þórshöfn eins og áður segir.