Fara í efni

Nýr upplýsingarvefur, visitlanganes.is, kominn á netið.

Fréttir

  Nýr upplýsingarvefur sem hannaður er með snjalltæki í huga hefur nú opnað á vegum sveitarfélagsins Langanesbyggðar. Slóðin er visitlanganes.is en mörg sveitarfélög hafa brugðið á það ráð að auglýsa sig undir þessum formerkjum og því þekkt leitarorð á alnetinu, visit+staðsetning.
  Vefurinn er tilkominn úr verkefninu „Miðlæg samskiptamiðstöð“ sem Uppbyggingarsjóður Norðausturlands styrkti en þar var markmiðið að skoða og bæta upplýsingamál. Byrjað var á stuttri könnun til annarra lítilla sveitarfélaga á landinu, þar sem spurt var um upplýsingarmiðstöðvar og hvernig fyrirkomulag hefði reynst best, með kostum og göllum. Niðurstaðan var að gera svokallaða kalda upplýsingamiðstöð, góðan vef sem hægt er að sýna á vettvangi ferðaþjónustuaðila sem og skoða almennt á internetinu þegar leitað er að upplýsingum um staðinn. Í sumar hefur Hrefna Maren Jörgensdóttir starfað sem sumarnemi hjá Langanesbyggð í samstarfi við Þekkingarnet Þingeyinga og Vinnumálastofnun, en hún vinnur við efnisöflun á vefinn. Áhersla var lögð á íslenska hlutann til að byrja með og nú er unnið að enskri þýðingu. Ferðaþjónstuaðilar sem vilja bæta við upplýsingum eru beðnir að hafa samband við skrifstofu.