Fara í efni

Nýr starfsmaður sýslumanns á Þórshöfn

Fréttir
Fyrsti viðskiptamaður við afgreiðsluborðið
Fyrsti viðskiptamaður við afgreiðsluborðið

Starfsmaður sýslumanns hefur tekið til starfa á Þórshöfn. Helsta viðfangsefni starfsmannsins snýr að verkefninu „Rafræn skönnun fjölskyldumála á landsvísu“. Markmið þess er að stuðla að heildstæðri mála- og skjalaskrá í flóknum og vandmeðförnum málaflokki, svo tryggja megi rafræna vistun og aðgengi að mikilvægum grundvallarskjölum til framtíðar á landsvísu.  Hér er því um að ræða verkefni sem er ekki bundið staðsetningu og því tilvalið til fjarvinnslu. Verkefnið er starfrækt á grundvelli verkefnastyrks Byggðastofnunar vegna fjarvinnslustöða til eins árs. Ljóst er að verkefnið er mun tímafrekara en svo en fjármögnun til lengri tíma er enn ótrygg.

 Samhliða öðlast íbúar Langanesbyggðar og nærsveitarmenn aðgang að almennri þjónustu sýslumanns, svo sem vegna tilkynninga, umsókna og skjala af ýmsu tagi. Helstu dæmin þar að lútandi varða andlátstilkynningar og útfararleyfi, sakavottorð og veðbókarvottorð, en auk þess er tekið við gögnum varðandi ökuskírteini, þinglýsingar, rekstrar- og tækifærisleyfi, Tryggingastofnun, Sjúkratryggingar o.fl. sem nánar er lýst á www.syslumenn.is.  Þá annast starfsmaðurinn staðfestingu undirskrifta og ljósrita og hefur milligöngu um verkefni sem kunna að vera háð viðveru þeirra einstaklinga sem í hlut eiga.

 Starfsmaðurinn hefur starfsaðstöðu á skrifstofu Langnesbyggðar á Þórshöfn í samræmi við samstarfssamning sýslumannsembættisins og sveitarfélagsins, frá 12. febrúar sl., en hann gildir einnig til áramóta.