Fara í efni

Nýr forstjóri Nausts

Fréttir

Í nóvember s.l. baðst Herdís Gunnarsdóttir lausnar sem forstjóri Nausts. Farið var í að leita að nýjum forstjóra í desember hjá ráðningarfyrirtækjum áður en farið var í að auglýsa. Leit að forstjóra bar ekki árangur hjá ráðningarfyrirtækjum. Áður en til auglýsingar kom sendi Þóra Magnúsdótir umsókn um starf hjá sveitarfélaginu. 
Eftir viðstöl við sveitarstjóra og forstjóra var tekin sú ákvörðun að ráða Þóru sem forstjóra til eins árs eins og lög leyfa. Byggðaráð staðfesti ráðninguna á fundi sínum 11. janúar og hóf Þóra störf í dag, 12. janúar.
Þóra er menntuð í verkefnastjórnun og á fleiri sviðum og hefur mikla reynslu úr atvinnulífinu m.a. af störfum við dvalarheimilið á Seyðisfirði. 
Herdís Gunnarsdóttir verður áfram starfsmaður Nausts sem rekstrarstjóri, staðgengill forstjóra og almennur starfsmaður og henni eru færðar kærar þakkir fyrir þann tíma sem hún hefur gengt starfi farsællega og staðið sig virklega vel í starfi forstjóra. 
Þess má geta að eftir umtalsverðan taprekstur í nokkur ár af ýmsum orsökum, aðallega vegna lítils framlags ríkisins tókst að snúa við rekstrinum við þannig að tapið á síðasta ári var umtalsvert minna en undanfarin ár. Betri nýting var á hjúkrunarheimilinu og meira fjármagn fékkst frá ríkinu en fyrst og fremst lagði starfsfólks Nausts mikið á sig til að takast á við vandann og ber ekki síst að þakka því að tekist hefur að snúa rekstrinum við.
Í haust hófust svo endurbætur á efri hæð hússins sem gert er ráð fyrir að ljúki í sumar. Einnig er ráðgert að fara í endurbætur á neðri hæð samkvæmt fjárhagsáætlun 2025. 
Þegar endurbótum verður lokið kemst vonandi jafnvægi á í rekstrinum og við fáum að njóta þess að hafa þessa nauðsynlegu þjónustu heima í héraði. Þá þurfum við ekki að leita til ríkisins um að taka við rekstrinum eins og nokkur sveitarfélög hafa þurft að gera sökum viðvarandi mikils tapreksturs.  Slíkt gæti haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir samfélagið í Langanesbyggð ef af yrði.