Fara í efni

Minnisblað sveitarstjóra vegna myglu í Grunnskóla Þórshafnar

Fréttir

Á fundi byggðaráðs í dag lagði sveitarstjóri fram eftirfarandi minnisblað vegna myglu sem komin er upp í Grunnskóla Þórshafnar.

Minnisblað sveitarstjóra vegna myglu í Grunnskóla Þórshafnar

Samkvæmt minnisblaði M03, 08-minnisblad-faglausnar-um-12023-mbl-03-stadfest-mygla-syni-3-tillogur-naestu-skref-250625.pdf er staðfest mygla og/eða raki í stórum hluta Grunnskóla Þórshafnar. Sjá einnig yfirlitsmynd sem fylgir þessu minnisblaði 08.1-250702-samantekt-syna-og-svaeda.jpg .

Staðan í dag er sú að sveitarfélagið stendur frammi fyrir tveimur kostum til lausnar vandanum.

     1. Að gera við þær skemmdir sem þegar hafa orðið að undangengnum frekari rannsóknum til að kortleggja ítarlega hve miklar þær eru. Kostnaður við viðgerð gæti numið, án ábyrðar um 400 milljónum +. Benda má á að frekari rannsóknir tefja úrlausn málsins auk kostnaðar við þær.
     2. Að byggja nýjan skóla á sama eða svipuðum stað. Kostnaður við það yrði varlega áætlaður 800 milljónir króna fyrir 800 m2 hús eða um 1 milljón á m2. Þar eru tveir kostir í þeirri stöðu verði ákveðið að fara þá leið.

     A) Að rífa núverandi skóla og byggja nýjan á grunni hans. Verði þessi kostur fyrir valinu þarf að rífa fyrst og hefja svo byggingu vorið 2026 sem bjartsýnar vonir benda til að gæti verðið lokið áður en skólaárið 2027/2028 hefst. Ókosturinn er sá að ekki er hægt að hefja framkvæmdir fyrr en niðurrifi er lokið.
     B) Að byggja nýjan skóla á nýjum stað á „skólatorfunni“. Kosturinn við þennan valkost er sá að hægt er að vinna samtímis að niðurrifi og byggingu og flýta þannig framkvæmdum.

Nokkrar staðreyndir liggja fyrir:
· Skólastjóri leggst eindregið gegn því að kenna í núverandi byggingu i haust í ljósi umfangs myglunnar.
· Finna þarf húsnæði fyrir alla kennslu næstu tvö árin til upphafs skólaárs á haustönn 2027 hið minnsta.

Faglausn getur tekið að sér að reikna út kostnað og gæti skilað fyrstu drögum til sveitarfélagsins fyrir 20.7.2025 (minnisblað, liður 11.2 og 11.3). Í framhaldi af því yrði boðað til aukafundar í sveitarstjórn og íbúafundar til að kynna málið fyrir íbúum.
Starfsmenn Faglausnar reifa í minnisblaði sínu þá kosti sem hér voru taldir á undan og mun kostnaðaráætlun miðast við þá kosti.

     1. Að gera við núverandi húsnæði (Rífa inn að beinagrind, að innan / utan og endurbyggja)
     2. Að rífa núverandi húsnæði og byggja nýtt að sömu stærð
Hér er einnig hægt að skoða kosti eins og að selja / gefa núverandi og byggja nýtt á aðliggjandi lóð

Það er ljóst að sú staða sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir er fyrirsjáanlega erfið. Þó má benda á að hægt er í þessu sambandi að skoða möguleika til að dreifa kostnaði yfir fleiri ár. Reyndar má ætla að þegar upp verður staði eru þeir kostir til langs tíma dýrari en sá augljósi að sveitarfélagið sjálft fjármagni og byggi nýjan skóla eða endurbyggi núverandi húsnæði.

     a) Að sem fyrsta skref yrði menntamálaráðuneytinu gerð grein fyrir stöðunni til að leita aðstoðar þess við áðurnefnd áform. Sterk rök hníga að því að sökum fjarlægðar og þar með sérstöðu sveitarfélagsins gæti verið meiri vilji til að aðstoða sveitarfélagið.
     b) Að fá fjárfesta / leigufélag til að byggja nýjan skóla og gera leigusamning til a.m.k. 10 ára. Slík lausn gæti falið í sér sameiginlegt eignarhald á leigutímanum.
     c) Að leita til sjóða sem sérstaklega eru stofnaðir (innviðasjóðir) til að leggja til fjármagn á móti sveitarfélaginu til að byggja nýjan skóla eða endurbyggja. Þátttaka slíkra sjóða þýðir endurgjald fyrir fjármögnun þeirra í formi leigu eða vaxta af láni.

Kostir b) og c) fela í sér að skuldabyrgði á sveitarfélagið yrði dreift yfir lengri tíma.

Sveitarstjórn þarf að hafa snör handtök og taka ákvörðun um val á leið til lausnar vandanum. Mikilvægt er í því sambandi að einhugur ríki í sveitarstjórn um málið og að sveitarstjórn verði sammála um leið.

___________________________________________
Björn S. Lárusson, sveitarstjóri.