Fara í efni

Langanesbyggð skal það heita

Fréttir
Byggðamerki Langanesbyggðar
Byggðamerki Langanesbyggðar

Á sveitarstjórnarfundi sameinaðs sveitarfélags Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps í gær, 11. ágúst, var samþykkt samhljóða að nýja sveitarfélagið skuli heita Langanesbyggð. Þessi ákvörðun er í samræmi við niðurstöður úr skoðanakönnun á meðal íbúa sem haldin var fyrr í sumar. Þá var einnig samþykkt nýtt byggðamerki fyrir sveitarfélagið og var það merki valið sem fékk flest atkvæði í skoðanakönnun á meðal íbúa. Höfundur byggðamerkisins er Steinbjörn Logason grafískur hönnuður.

Sigurður Þór Guðmundsson oddviti Langanesbyggðar:

„Ég er ánægður með að okkar nýlega sameinaða sveitarfélag sé komið með nafnið Langanesbyggð. Eins er nýtt byggðamerki vel valið en þar var íslensku sauðkindinni bætt við fiskinn og fuglinn sem fyrir voru á byggðamerki Langanesbyggðar. Byggðirnar í sameinuðu sveitarfélagi eru við Langanes og nærumhverfi og nafnið því lýsandi fyrir okkar góða kauptún á Þórshöfn og nærsveitirnar við Þistilfjörð og Bakkafjörð. Sameiningarvinnan hefur staðið yfir síðustu mánuði og við verðum áfram að vinna í ýmsum verkefnum sem tengjast því þegar sveitarfélög sameinast. Í Langanesbyggð er öflugð atvinnulíf á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar. Í okkar sveitarfélagi er gott mannlíf og ég tel ýmis tækifæri framundan – ekki síst á sviði ferðaþjónustu þar sem við höfum mikla möguleika horft til framtíðar“.