Fara í efni

Jörðin Hallgilsstaðir 1 í Langanesbyggð til leigu.

Fréttir

Til leigu er jörðin Hallgilsstaðir I í Langanesbyggð.

Á jörðinni er rekið 400 kinda bú. Húsakostur er íbúðarhús, 140 m2, 400 kinda fjárhús, stálgrindarhús með djúpum kjallara, mikið endurnýjuð að innan, 359 m2 stálgrindahlaða, 10,8 m2 skúr sem breytt hefur verið í hundahús og 50 m2 nýuppgert hesthús.

Ræktað land telst rúmlega 35 ha, en að auki eru framræstar mýrar og mólendi. Með í leigunni fylgir 424 ærgilda greiðslumark.

Bústofn er í eigu fráfarandi leigutaka og er til sölu samkvæmt nánara samkomulagi við hann. Gert er ráð fyrir ábúendaskiptum í ágúst 2023, en tún og ræktun verði aðgengileg nýjum ábúenda eigi síðar en 1.júní samkvæmt nánara samkomulagi.

Veiðiréttur í Hafralónsá fylgir jörðinni, hann verður á forræði leigusala á samnings tíma og mun leigusali fara með atkvæðistétt jarðarinnar í Veiðifélagi Hafralónsár og arðgreiðslur renna beint til leigusala

Lágmarks leigutími er 5 ár og framlengist um 1 ár í senn ef honum er ekki sagt upp. Báðum aðilum er heimilt að segja samningi þessum upp, með árs fyrirvara, miðað við að lok leigutíma sé 1. Júní. Jarðarleiga er arðgreiðslur af Hafralónsá sem greiðast beint til leigusala frá Veiðifélagi Hafralónsár að viðbættu umsömdu leigugjaldi, framreiknuð miðað við vísitölu neysluverðs 1. júlí og 1 janúar ár hvert.

Allar nánari upplýsingar um jörðina gefur Jónas Pétur Bóasson formaður Stjórnar Jarðasjóðs, netfang jpb@centrum.is, sími 844 0752.

Við val á leigutaka mun Langanesbyggð taka mið af landbúnaðarhagsmunum, eftirfarandi atriði eru metin sérstaklega:
1) Menntun á sviði landbúnaðar og önnur hagnýt menntun.
2) Starfsreynsla í landbúnaði.
3) Að áform umsækjenda um framtíðarnýtingu jarðarinnar teljist raunhæf að teknu tilliti til staðhátta.
Auk þessa getur sveitarfélagið óskað eftir fjárhagslegum upplýsingum frá umsækjendum.

Þeir sem hafa áhuga á því að leigja jörðina eru vinsamlegast beðnir að skila inn tilboði vegna leigu jarðarinnar þar sem koma fram upplýsingar um ofangreind atriði. Tilboðum skal skila inn á skrifstofu Langanesbyggðar eða á netfangið bjorn@langanesbyggd.is fyrir 12. mars n.k.

Langanesbyggð áskilur sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum.