Fara í efni

Hafnartanginn á Bakkafirði vígður

Fréttir

Útsýnisstaðurinn Hafnartanginn sem stendur við gömlu höfnina á Bakkafirði var vígður í gær 18. ágúst 2022 eftir að íbúafundur hafði verið haldinn á vegnum verkefnisstjórnar verkefnisins Betri Bakkafjörður. Við vígsluna blessaði séra Þuríður W. Árnadóttir pallinn. Hafnartanginn er pallur sem gengur fram á klappirnar miðsvæðis í kauptúninu á Bakkafirði og þar er gott útsýni út Bakkaflóa og Gunnólfsvíkurfjall blasir við ef skyggni er gott.  Þetta verkefni við að byggja Hafnartangann fékk stuðning frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða en Langanesbyggð studdi framkvæmdina einnig myndarlega.  Það var Garðvík ehf á Húsavík sem var aðalverktaki en fleiri fyrirtæki komu einnig að verkefninu.  Vonir standa til að Hafnartanginn styrki ferðaþjónustuinnviði á Bakkafirði og laði ferðafólk að staðnum þar sem nú er góð aðstaða til að stoppa og njóta útsýnis. Á Bakkafirði er nú góð aðstaða fyrir ferðafólk, má þar nefna nýtt bílastæði við Hafnartangann, veitingastað, gistiheimili og tjaldsvæði með þjónustuhúsi en allt er þetta í göngufæri.