Góð byrjun á GEBRIS samstarfinu
Dagana 25-27 september voru fyrstu fundir samstarfsaðila í GEBRIS verkefninu haldnir og óhætt er að segja að ágætlega hafi tekist til. Hingað til lands komu 4 fulltrúar frá Finnlandi, tveir frá Svíþjóð og einn frá Noregi.
Á fyrsta fundinum sem var haldinn á Hvalasafninu á Húsavík á þriðjudagsmorgun var fyrst og fremst verið að stilla saman strengi. Hver samstarfsaðilanna var með kynningu á sínum stofnunum eða fyritækjum og síðan var farið yfir verkefnishugmyndina og aðdraganda hennar.
Að loknum hádegisverði á Sölku var stefnan tekin austur og stutt viðkoma höfð í Gljúfrastofu og síðan á Kópaskeri þar sem Benedikt Björgvinsson tók á móti hópnum og kynnti áform um Jarðskjálftasetur.
Þaðan var svo ekið til Raufarhafnar. Fundahöld héldu áfram á Hótel Norðurljósum og var nú farið nánar yfir praktísk atriði varðandi verkefnið og samstarfið framundan.. Auk erlendu gestanna og fulltrúa AÞ fylgdust með fundinum þau Benedikt Björgvinsson, Erlingur Thoroddsen og Elísabet Gunnarsdóttir aðstoðarmaður sveitarstjóra Norðurþings. Að fundi loknum heimsótti hópurinn Gallerí Ljósfang, og hitti þar nokkra forsprakka handverkshópsins á Raufarhöfn. Það leyndi sér ekki almennur áhugi og hrifning gesta af því kraftmikla fólki sem þar er á ferðinni og ótrúlegu starfi sem þarna er unnið.
Eftir að hafa framreitt frábæran kvöldverð gaf Erlingur Thoroddsen gestunum innsýn í Heimskautsgerðið sem ráðgert er að reisa á Melrakkaásnum við Raufarhöfn.
Að morgni miðvikudags, 26. september, var haldið áleiðis til Þórshafnar þar sem Björn Ingimarsson sveitarstjóri bættist í hópinn og leiddi í skoðunarferð. Fyrsti viðkomustaður var Sauðaneshúsið þar sem gestir skoðuð sýninguna og fræddust um sögu hússins frá einum af síðastu ábúendum þar. Að því búnu lá leiðin út að Skoruvíkurbjargi á Langanesi að þar sem hópurinn virti fyrir sér súlubyggðina í Karlinum.
Hádegisverður var snæddur á Eyrinni þar sem Nanna bauð að sjálfsögðu upp á heimaframleiðslu, þ.e. kúffisksúpu og lifandi kúffisk beint úr skelinni.
Að hádegisverði loknum fór hópurinn í heimsókn til Karenar í Fánasmiðjunni og fékk örstutta kynningu á því starfi sem þar fer fram.
Síðasti verkefnisfundurinn í þessari lotu var svo haldinn í félagsheimilinu á Þórshöfn. Auk erlendu gestanna og fulltrúa AÞ sátu þennan fund þau Björn Ingimarsson, sveitarstjóri, Miriam Blekkenhorst, Nanna Höskuldsdóttir og Bjarnveig Skaftfeld.
Verkefnið var kynnt í stuttu máli fyrir þeim sem nýir komu að og Björn Ingimarsson gerði grein fyrir væntingum heimamanna gagnvart því.
Að því búnu var hvert land með ítarlegri kynningu á sinni verkefnishugmynd og að lokum var farið yfir næstu skref í samstarfinu og heimavinna aðilanna undirbúin.
Södd af fundahöldum hélt hópurinn svo aftur niður á Eyrina þar sem gestirnir fengu loks að bragða á íslenska lambinu.
Fimmtudagurinn var tekinn snemma, enda nokkuð ferðalag fyrir höndum. Lagt var af stað frá Raufarhöfn fyrir átta, og ekið sem leið lá fyrir sléttu og síðan upp með Jökulsá að austanverðu. Skyggni var ágætt og þegar kom upp á Hólssand blasti Herðubreið við í allri sinni dýrð. Stuttur stans var gerður við Hafragilsfoss og síðan Dettifoss þar sem hópurinn gekk að fossinum. Næsti viðkomustaður var svo hverasvæðið við Námafjall og því næst Jarðböðin við Mývatn.
Að loknu baði var haldið í Vogafjós þar sem hádegisverðurinn samanstóð nánast eingöngu af heimaframleiðslu. Öllu að óvörum birtist þar Kjötkrókur og skapaði að vanda bæði usla og kátínu.
Að loknum hádegisverði var svo gerður stuttur stans við Dimmuborgir áður en haldið til Akureyrar, þaðan sem hópurinn átti bókað flug. Það fór reyndar svo að sökum hvassviðris lá innanlandsflug niðri þennan dag og því varð úr að hópurinn keyrði suður með rútu. Það er því óhætt að segja að erlendu gestirnir hafi fengið að sjá mikið af landinu í þessari stuttu heimsókn, þrátt fyrir töluverð fundahöld, og þeir voru æði margir kílómetrarnir sem lágu að baki að heimsókn lokinni.
Þrátt fyrir stífa dagskrá og mikil ferðalög voru gestirnir hinir ánægðustu með heimsóknina.