Fara í efni

Góð afkoma hjá Langnesbyggð

Fréttir

Góð afkoma var á rekstri Langnesbyggðar á síðsta ári og afgangur af almennum rekstri sveitarfélagsins. Hins vegar er mikill kostnaður af rekstri Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Naust sem setur reksturinn í heild í tap.

Naust er eins og kunnugt er rekið fyrir framlög frá Sjúkratryggingum Íslands, en framlög þeirra hafa ekki þróast í samræmi við verðlagshækkanir í landinu. Er þetta því sem næst algilt vandamál í landinu. 

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 1.007 m.kr. samkvæmt ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 782 m.kr. Álagningarhlutfall útsvars var 14,52% sem er lögbundið hámark. Álagningarhlutfall fasteignaskatts í A-flokki var 0,625% sem er lögbundið hámark með álagi. Í B-flokki var álagningarhlutfallið 1,32% sem er lögbundið hlutfall og í C-flokki var álagningarhlutfallið 1,65% sem er lögbundið hámark með álagi. Rekstrarniðurstaða A og B hluta sveitarfélagsins, samkvæmt ársreikningi A og B hluta, var neikvæð um 27 m.kr., en neikvæð fyrir A hluta um 24 m.kr. samkvæmt rekstrarreikningi, að teknu tilliti til 27 m.kr. afskrifta á framlagi til Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Nausts á árinu 2021. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2021 nam 807 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A og B hluta, en eigið fé A hluta nam 514 m.kr.