Fara í efni

Fundur með forstjóra HSN

Fréttir

Velferðar og fræðslunefnd átti fund með Jóni Helga Björnssyni forstjóra HSN um heilbrigðisþjónustu í Langanesbyggð. Fjallað var um stöðu, skipulag og framtíðarsýn á fundinum.
Nefndin gerði eftirfarandi bókun í fundinum: Nefndin hvetur sveitarstjórn til að standa vörð um heilbrigðisþjónustuna í dreifbýli og jafnframt að minna ráðuneyti heilbrigðismála á nauðsyn t.a.m. sérfræðiþjónustu úti á landi. 
Í framhaldi af fundin nefndarinnar var málið tekið fyrir á 141. fundi sveitarstjórnar 20. apríl s.l.

Þar kom fram eftirfarandi bókun:  "Sveitarstjórn Langanesbyggðar leggur áherslu á að góð heilbrigðisþjónusta í sveitarfélaginu sé ein af grundvallarforsendum fyrir farsælli uppbyggingu byggðarlags í framtíðinni. Hún lýsir sérstakri ánægju með því bakvaktakerfi hjúkrunarfræðinga sem búið er við og mjög gott lið viðbragðsaðila sem á svæðinu eru. Sveitarstjórnin leggur mikla áherslu á að læknir sé með fasta búsetu á Þórshöfn. Rökin eru að oft á tíðum er vetrarfærð hér erfið og hér sé fjölmennasti byggðakjarninn á stóru svæði. Auk þess sem hér er hjúkrunarheimili og mjög fjölmennur vinnustaður sem kalli á örugga læknisþjónustu. Sveitarstjórn leggur enn fremur áherslu á að hér verði starfandi ljósmóðir í byggðarlaginu þegar sú sem gegnir þessu hlutverki lætur af störfum síðar á árinu. Þá er það mat sveitarstjórnar að mikilvægt sé að heilbrigðisyfirvöld sjái til þess að sérfræðingar heimsæki héraðið reglulega. Hér er t.d. átt við heimsóknir tannlækna, augnlækna, háls- nef og eyrnalækna, barnalækna svo dæmi séu tekin. Rökin eru einfaldlega að fjarlægðir séu miklar og mikill kostnaður fylgi oft tíðum ferðum íbúa til læknis um langan veg".

Bókunin var samþykkt samhljóða.