Fara í efni

Fréttir af vettvangi Langanesbyggðar

Fréttir
Fyrsta steypa við útsýnispall á Bakkafirði
Fyrsta steypa við útsýnispall á Bakkafirði

Í helstu fréttum af því sem hefur verið að gerast undanfarið hér hjá okkur í Langanesbyggð má m.a. greina frá því að uppsteypa er hafin við útsýnispall við Hafnartanga á Bakkafirði sem sjá má af mynd sem fylgir hér með. Framkvæmdum við útsýnispallinn á að ljúka í næsta mánuði.

Meðal annarra atriða má telja að verklok við dýpkunarframkvæmdir í Þórshafnarhöfn hafa tafist þar sem í ljós kom við mælingu að stærra svæði náði ekki mælingu, en verklok eru áætluð í næstu viku.

Flotbryggjan á Þórshöfn er komin á sinn stað aftur. Skipt var um allar kveðjur sem og akkeri og bætt var við rafmagnsleiðslum og tengingum vegna aukins fjölda smábáta við höfnina.

Gamli vigtarskúrinn hefur verið færður af bryggju og upp að áhaldahúsi þar sem þegar hafa verið hafnar lagfæringar á honum. Gámurinn verður síðan færður upp á gámasvæðið þar sem hann verður tengdur við vatn og frárennsli sem þegar eru til staðar.

Nýr kapall hefur verið lagður að innsiglingarljósi á norðurgarðinum á Þórshöfn en sá eldri var orðinn 20 ára gamall og mjög slitinn. Farið verður í endurnýjun á raflögnum að innsiglingarljósum á Bakkafirði þegar framkvæmdum þar lýkur.

Tafir hafa verið á upphafi framkvæmda við lagfæringar á hafnargarðinum á Bakkafirði, en upphaflega átti verkið að hefjast um miðjan janúar. Frestun var veitt til að hefja vinnu fram í febrúar og miðað var við verklok um miðjan maímánuð nk. sem fyrr.

Kafarar voru sendir til að stilla keðjur á nýju flotbryggjunni á Bakkafirði og koma landgangi á aftur. Verið er að vinna í að koma rafmagni á flotbryggjuna sem og að koma olíudælunni fyrir við enda hennar.

Verið er að endurnýja og skipta út rafmagnstengingum á Bakkafjarðarhöfn. Tiltekt hefur verið á hafnarsvæði Bakkafjarðar.

Hreinsun var gerð uppá gámasvæði í kringum gáma Langanesbyggðar á Þórshöfn sem og inni í þeim. Einnig var gamli slökkviliðsbíllinn færður yfir á ruslasvæði þar sem hann bíður þess að vera fjarlægður af gámaþjónustunni.

Skipt var um götuljós í Langholti og Pálmholti og eru þá 10 ljós eftir sem bíða þess að vera sett upp í Vesturvegi og Bakkavegi. Bilun er á streng upp í Langholt, Pálmholt, Vesturveg og Bakkaveg svo ljósin eru ekki inni þar. Beðið er eftir að fá rafvirkja til að laga skemmdirnar.