Fara í efni

Fjárhagsáætlun 2024 og þriggja ára áætlun afgreidd

Fréttir

Fjárhagsáætlun Langanesbyggðar fyrir árið 2024 var afgreitt við síðari umræðu 14. desember ásamt 3ja ára áætlun fyrir árin 2025 til 2027. Útlit er fyrir að rekstrarniðurstaða A og B sjóðs á þessu ári verði um 136 milljónir króna og í áætlun fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir niðurstaðan verði 108,5 milljónir króna.

Ef aðeins er tekin A sjóður (sveitarsjóður) þá er útlit fyrir að rekstrarniðurstaðan verði um 87 milljónir króna á þessu ári en tæpar 50 eru áætlaðar á árinu 2024.

Veltufé frá rekstri samstæðunnar (A og B sjóðs) er áætlað á þessu ári um 95 milljónir króna en í áætlun næsta árs er gert ráð fyrir að það verði um 15 milljónir króna.

Undanfarið hefur verið gætt aðhalds í rekstri og fjárfestingum á meðan vextir og verðbólga eru há en komið er að nauðsynlegum fjárfestingum og viðhaldi sem endurspeglast í áætlun næsta árs og 3ja ára áætlun. Gert er ráð fyrir að 328 milljónir fari í fjárfestingar á næsta ári og 224 á árinu 2025. Þar vega þyngst endurbætur á hjúkrunarheimilinu Nausti, endurskipulagning sorpmála og frárennslismál.

Skuldahlutfall samstæðunnar er um 70% en sveitarsjóðs um 105%. Nær allar skuldir sveitarsjóðs eru við lánastofnanir með uppgreiðsluákvæði og því ekki hægt að greiða þær upp en um fjórðungur skulda er við eigin fyrirtæki.

Það er bjart framundan þó sveitarfélagið hefði viljað fara í meiri framkvæmdir og viðhald eigna en erfitt er um vik í þessu efnahagsástandi. Því þarf áfram að gæta aðhalds í rekstri sveitarfélagsins og forgangsraða verkefnum.