Fara í efni

Ert þú að greiða sorpgjöld nágrannans?

Fréttir

Komið hefur í ljós að örfáir íbúar eru að setja blandaðan úrgang í grænu tunnurnar þar sem eingöngu á að fara pappi og plast. Þetta gerir það að verkum að flytja þarf það sorp langar leiðir til förgunar og er ekki tækt til endurvinnslu á pappa og plasti. Þessir örfáu hafa jafnvel verið staðnir að því að setja blandaðan úrgang undir pappa til að hylja matarleifar og annað sorp sem EKKI á að fara í þessar tunnur heldur í gráu tunnurnar. 

Undanfarin ár hafa sorpgjöld í Langanesbyggð hækkað umfram almenna gjaldskrá vegna þess að flokkunin, sem byrjar á heimilunum, er langt frá því að vera í lagi vegna þess að einstaka íbúar fylgja ekki einföldum reglum. Þetta þýðir að plast og pappi sem á að fara í endurvinnslu fer beint í urðun þegar það kemur á áfangastað á Akureyri þar sem pappinn og plastið ætti að vera endurunnið. Ef matarleifar eða annar úrgangur er í sorpinu er því ekið miklu lengra til förgunar sem kostar samfélagið okkar stórfé. Þannig eru þeir sem fylgja reglunum að greiða fyrir þá sem ekki fylgja þeim. Í dag standa sorpgjöldin aðeins undir tæplega helming útgjalda meðal annars vegna þessa vandamáls. 

Hér eru aðeins 2 tunnur eins og er og einfaldara getur það ekki verið. Ein (græn) fyrir plast og pappa og önnur (grá) fyrir annan úrgang. 

Á næsta ári verður tekið upp nýtt flokkunarkerfi en frá því segir í næstu frétt. Við íbúar eigum að standa saman, fara eftir þessum einföldu reglum því þær eiga eftir að verða flóknari þegar okkur verður gert að fylgja nýnum reglum með 4 tunnur.