Fara í efni

Auglýsing um að fjarlægja skuli ónýtar girðingar á eyðijörðum í Langanesbyggð

Fréttir

Með vísan til 12. gr. girðingalaga nr. 64/1976 vill sveitarstjórn Langanesbyggðar hvetja alla eigendur eyðijarða í sveitarfélaginu til að fjarlægja allar ónýtar girðingar á landareignum sínum. Skv. þessari grein girðingarlaga er sveitarfélaginu skylt að láta hreinsa ónýtar girðingar á kostnað landeigenda bregðist þeir ekki við sjálfir. Á sveitarfélagið þá lögveð í jörðum fyrir áföllnum kostnaði. Bréf þessa efnis hafa áður verið send öllum landeigendum í Langanesbyggð á árunum 2015, 2017 og 2018.

Í samræmi við ofangreinda aðgerðaráætlun er landeigendum hér með gefinn lokafrestur til og með 26. ágúst 2019 til að gera grein fyrir áætlunum sínum um hvernig og hvenær þeir muni standa að hreinsun ónýtra girðinga á jörðum sínum. Eins er þeim landeigendum sem það vilja gefinn kostur á að óska eftir því að sveitarfélagið sjái um hreinsun ónýtra girðinga að undangengnu mati á kostnaði. Frestur til að gefa svar við þessu boði er sá sami, eða til 26. ágúst nk.

Að afloknum þessum fresti mun sveitarfélagið láta fara fram mat á kostnaði við að fjarlægja ónýtar girðingar af jörðum þeirra sem hlut eiga að máli, með vísan til áðurnefndrar 12. gr. girðingalaga. Þar segir:

Þegar lögð er girðing af ábúanda fer um skyldur jarðeiganda við burtför ábúandans eftir sömu reglum og um hús á jörðinni sé að ræða, sbr. 16. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976.

Öllum umráðamönnum lands er skylt að hreinsa burtu af landi sínu ónothæfar girðingar og girðingarflækjur. Nú vanrækir umráðamaður lands þessi fyrirmæli í eitt ár eftir að lög þessi öðlast gildi og er þá sveitarstjórn skylt að framkvæma verkið á hans kostnað að fengnu mati búnaðarsambands og á sveitarstjórn þá lögveð í jörðinni fyrir greiðslu kostnaðar. Það sama gildir um eyðijarðir.

Að þessum tíma liðnum mun sveitarfélagið hefja aðgerðir við að hreinsa ónýtar girðingar eins og því er skylt skv. ofangreindum lagaákvæðum.

Landeigendur eða umráðamenn skulu senda tilkynningar til skrifstofu sveitarfélagsins á netfangið: skipulag@langanesbyggd.is eða með bréfi á skrifstofu sveitarfélagsins, að Fjarðarvegi 3, 680 Þórshöfn. Þar þarf að koma fram hvenær þeir hyggjast hreinsa ónýtar girðingar af jörðum sínum eða óska eftir því við sveitarfélagið að það verði gert fyrir þá.

 

Sveitarstjóri.