Fara í efni

Álit samstarfsnefndar samþykkt í sveitarstjórn Langanesbyggðar

Fréttir

Samstarfsnefnd um hugsanlega sameiningu Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps hefur afgreitt álit sitt og helstu forsendur og vísað til tveggja umræðna í sveitarstjórnum. Síðari umræðu lauk í báðum sveitarstjórnum þann 24. janúar og var kjördagur samþykktur 26. mars.

Ákvörðun um formlegar sameiningarviðræður var tekin á grundvelli farsæls samstarfs sveitarfélaganna og könnunarviðræðna sem fóru fram á tímabilinu apríl til nóvember 2021. Við könnunarviðræðurnar var haft samráð við íbúa beggja sveitarfélaga og fyrirliggjandi eru gögn sem nýtast við gerð álits samstarfsnefndar, kynningu fyrir íbúa og undirbúning sameiningarkosninga. Þátttakendur á samráðsfundum sáu ýmis tækifæri við sameiningu sveitarfélaganna, en jafnframt ýmsar áskoranir. Áskoranirnar lúta fyrst og fremst að áhyggjum íbúa í dreifbýli af því að missa áhrif á ákvarðanir í nærumhverfi sínu og hvernig farið verður með jarðeignir sveitarfélaganna. Tækifæri liggja helst í að bæta þjónustu við íbúa beggja sveitarfélaga, auka fjárfestingagetu, skapa tækifæri til atvinnuþróunar og auka slagkraft til að bæta samgöngur og þjónustu hins opinbera.

Álit samstarfsnefndar og helstu forsendur
Sveitarfélögin tvö hafa átt í farsælu samstarfi um langa hríð. Að mati samstarfsnefndar getur sameining þeirra skapað tækifæri til skilvirkari stjórnsýslu og þjónustu, auk þess sem tækifæri eru til frekari atvinnuþróunar og nýsköpunar. Vísbendingar eru um að fjárhagur sameinaðs sveitarfélags verði sterkur og fjárfestingageta meiri en hjá hvoru sveitarfélagi um sig, ekki síst með um 548 mkr. áætluðu sameiningarframlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Samstarfsnefndin leggur til að í stjórnskipulagi sameinaðs sveitarfélags verði nefnd sem fjalli sérstaklega um hagsmuni dreifbýlisins og landbúnaðarmál. Á þann hátt verði komið til móts við áhyggjur íbúa í dreifbýli af því að missa áhrif á ákvarðanatöku. Samstarfsnefnd tekur undir ábendingar íbúa um að nauðsynlegt sé að halda sérstaklega utan um jarðeignir sveitarfélaganna og nýta tekjur af þeim til að skapa tækifæri til styrkingar mannlífs, byggðar og atvinnutækifæra. Nefndin leggur til að stofnaður verði sérstakur sjóður í þeim tilgangi og hefur unnið tillögu að samþykktum fyrir slíkan sjóð.
Það er álit nefndarinnar að íbúar sveitarfélaganna skuli fá tækifæri til að kjósa um sameiningu sveitarfélaganna í eitt.