Fara í efni

Aðgerðir vegna myglu í grunnskólanum

Fréttir

Eftir að ljóst var í vor að mygla væri komin upp í Grunnskóla Þórshafnar hafa ýmsar leiðir verið skoðaðar hvað gert verður vegna stöðunar sem upp er komin.  Sveitarstjórn fól sveitarstjóra að skoða hvaða leiðir væru mögulegar í stöðunni. Rannsóknir höfðu sýnt að um það bil þriðjungur sýna var sýktur af myglu auk þess sem mikill raki fannst um nær allan skólann. Raki í húsnæði er ávísun á myglu og hann er illviðráðanlegur og tímaspursmál hvenær mygla kemur upp þar sem rakinn er. Það skal ítrekað hér enn og aftur að engin endanleg ákvörðun hefur verið tekin hvað gert verður og málin verða itarlega rædd á íbúafundi í október þar sem vonast er til að fá athugasemdir og hugmyndir frá íbúum. Eftir að sveitarstjóri hafði ráðfært sig við ýmsa sérfræðinga á þessu sviði, byggingameistara og hönnuði voru lagðar til 3 leiðir. 

     1. Að gera við þær skemmdir sem þegar hafa orðið að undangengnum frekari rannsóknum til að kortleggja ítarlega hve miklar þær eru. Bráðabirgða áætlun um kostað er um  700 milljónir króna ef mögulegt væri að fara í viðgerðir. Bent var á, að frekari rannsóknir mundu tefja úrlausn málsins auk kostnaðar við þær. Mikil óvissa yrði um lokaniðurstöður frekari rannsókna auk þess sem rakamælingar sýndu hættu á myglu á mun  fleiri stöðum.  Þar að auki hafa i gegn um tíðina farið fram umfangsmiklar viðgerðir og endurbætur sem því miður dugðu ekki til. 
     2. Að byggja nýjan skóla á sama stað. Kostnaður við það yrði varlega áætlaður um 950 milljónir króna fyrir 800 m2 hús eða tæplega 1,2  milljónir á m2.  Fyrst yrði ráðist í að rífa skólann og að því loknu byggður nýr skóli. Þessi leið er sú dýrasta af þessum 3 leiðum þar sem kosta þarf bæði niðurrif og nýbyggingu auk þess sem það tæki lengstan tima að fara þessa leið.   
     3.  Að byggja nýjan skóla á nýjum stað á „skólatorfunni“. Kosturinn við þessa leið er sá að hægt er að hefjast handa strax vð hönnun og teikningar og byrja framkvæmdir vorið 2026. Á sama tíma væri hægt skoða möguleika hvað gert yrði við eldri byggingu. Hugsanlegt er að nýta lítinn hluta hans til annars en skólahalds en það á eftir að koma í ljós.  Stærsti kosturinn við að velja þessa leið er sá að með henni verður til nýr skóli sem er í samræmi við þarfir nútíma þvi ýmislegt vantar uppá í eldri byggingu sem byggð er á árunum 1944-1996.  Kostnaður er áætlaður um 800 milljónir með öllum fyrirvörum. 

Sveitarstjórn valdi að skoða leið 3 nánar og í því skyni voru settir á laggirnar 2 hópar þar sem annar mun einblína á þarfagreiningu, það er, hvað þarf að vera í nútíma byggingu og hvernig verður hann nýttur. Hinn hópurinn skoðar hugsanlega staðsetningu skólans með tilliti til þeirrar þarfagreiningar sem ætti að liggja fyrir innan skamms og hvar hentugt er að byggja skólann vegna tengsla við aðra starfsemi á þessum reit. 

Það er deginum ljósara, hvaða leið sem fyrir valinu verður að hér þarf að vanda til verka. Það virðist vera lögmál að nýbyggingar á vegum hins opinbera fari fram úr áætlun. Því þurfa margir að koma að hönnun og teikningu, eldvarnareftirlit, vinnueftirlit, byggingafulltrúi, heilbrigðiseftirlit og ekki síst þarf sveitarfélagið að fylgjast strangt með kostnaðaráætlun, verkáætlun, innkaupum og undirbúa málið það vel að ekki þurfi að koma til einhverra meiriháttar breytinga á miðri leið sem alltaf hafa í för með sér aukinn kostnað.