Fara í efni

Hreinsun strandlengjunnar í Langanesbyggð

Fréttir

Dagana 13.-15. ágúst vann hópur 22 vaskra sjálfboðaliða að hreinsun strandlengjunnar í Langanesbyggð. Hafist var handa við fuglaskoðunarskýlið hjá Ytra-Lóni og unnust um 2 km norður nesið.

Ruslið, eða hráefnið eftir hvernig á er litið, var að ýmsum toga en töluvert bar á veiðarfærum og plastrusli líkt og brúsum, flöskum og forhlöðum en inn á milli mátti finna fatnað og glundur í glerflöskum. Alls fylltust 12 áburðarsekkir af plasti auk nokkurra hrúga af því sem þótti ekki við hæfi að sóa sekkjum undir. Áætlað magn er um 4 tonn.

Að sögn Tómasar sem oftast er kenndur við Bláa herinn er af nógu að taka á Langanesinu en hann fór í óformlega vettvangsferð um svæðið með dróna og mat sem svo að rík þörf væri á hreinsun strandlengjunnar hér á svæðinu því hér ræki augljóslega mikið á land.

Verkefni var samstarfsverkefni Langanesbyggðar og umhverfisverndar samtakanna Ocean Missions auk Veraldarvina og Bláa hersins sem bættist óvænt við en hershöfðinginn var fyrir tilviljun staddur í nærliggjandi sveitarfélagi og dreif sig á milli fjarða þegar hann heyrði hvað stæði til. Blái herinn hefur unnið að hreinsun strandlengjunnar við Ísland í 25 ár.

Veraldarvinir ættu að vera íbúum Langanesbyggðar vel kunnugir frá fornu fari en samtökin Ocean Missions voru stofnuð 2019 og eru því ögn nýrri af nálinni. Kjarni samtakanna er fámennur hópur einstaklinga með ólíkan faglegan bakgrunn en tveir sjávarlífræðingar, sjávarvistfræðingur auk skipstjóra og leiðsögumanns eru stofnendur samtakanna. Ocean Missions eru starfrækt frá Húsavík og vinna að því að hvetja almenning til aðgerða auk þess að leggja sitt á vogarskálarnar með söfnun gagna, flutningi fræðsluerinda og hreinsunar átökum sem þessu.

Langanesbyggð þakkar öllum aðilum samstarfið og Ísfélagi Vestmannaeyja fyrir að leggja til auka sekki þegar á þurfti að halda.