Fara í efni

Grásleppan 2024

Boðið verður upp á stórkostlega matarupplifun til að kynna grásleppuna sem hráefni og möguleika á nýtingu hennar. Gestum verður boðið að smakka nýstárlega vöru í bland við hefðbundnari útfærslu á hráefninu.
Matarupplifunin er tengd verkefninu „Grásleppugæði - sælgæti sjávar“ sem unnið er í samstarfi Bakkasystra ehf., Bjargsins ehf., á Bakkafirði, ásamt Biopol ehf., á Skagaströnd og Háskólanum á Akureyri. Verkefnið miðar að þróun á matvælum í sjávarútvegi þar sem litið er til aukinnar sjálfbærni vegna þess að hráefnunum er hent að mestu í dag.
Hugmyndin að Grásleppugæði - sælgæti sjávar er að skapa nýjar afurðir úr grásleppu og auka þannig verðmætasköpun, skapa atvinnu í sjávarbyggðum og vinna nýja markaði erlendis. Verkefnið fékk nýverið styrk úr Lóu-nýsköpunarstyrk fyrir landsbyggðina, sem mun nýtast í áframhaldandi vöruþróun, fullvinna vöruflokka og koma þeim á markað.
Matreiðslumeistarinn Fanney Dóra Sigurjónsdóttir hefur yfirumsjón með matarupplifuninni, en hún er þekkt fyrir frumleika í matargerð og einbeitir sér að því að nýta hráefni úr nærumhverfi.