Fara í efni

Skeggjastaðakirkja við Bakkafjörð er stór menningararfleifð - helguð Þorláki biskup helga

Tónleikar
Skeggjastaðakirkju er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá því um 1200. Skeggjastaðakirkja er í Skeggjastaðaprestakalli í Múlaprófastsdæmi. Skeggjastaðir eru bær, kirkjustaður og prests

Skeggjastaðakirkju er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá því um 1200.
Skeggjastaðakirkja er í Skeggjastaðaprestakalli í Múlaprófastsdæmi. Skeggjastaðir eru bær, kirkjustaður og prestssetur við Bakkafjörð á Langanesströnd.

Kirkjan, sem nú stendur, er úr timbri, Skeggjastaðakirkja var byggð árið 1845 og er elst kirkna á Austurlandi eða 163 ára.

Sr. Hóseas Árnason sem var prestur á Skeggjastöðum1839-1859 stóð fyrir byggingu kirkjunnar.

Talið er, að Ólafur Briem timburmeistari á Grund í Eyjafirði hafi teiknað kirkjuna, en yfirsmiður var Guðjón Jónsson, snikkari á Akureyri. Kirkjan er úr rekaviði sem fluttur var frá Skálum á Langanesi, Hún tekur u.þ.b. 100 manns í sæti.

Þakið er úr timbri, rennisúð að utan en skarsúð að innan, póstaþil er inni. Það var enginn turn á kirkjunni upphaflega, en hann ásamt viðbyggingu bættist við, þegar hún var tekin til gagngerðrar viðgerðar 1961-62. Í viðbyggingunni er forkirkja og skrúðhús. Kirkjunni var lyft og hún stendur nú á steyptum grunni. Gréta og Jón Björnsson skreyttu hana og máluðu. Prédikunarstóllinn er danskur, líklega frá fyrri hluta 18. aldar. O. Knippel málaði altaristöfluna 1857.

Sr. Sigmar Ingi Torfason þjónaði söfnuðinum í 44 ár, 1944-1988. Bók sr. Sigmars, Skeggjastaðir Kirkja og prestar 1591-1995 segir sögu kirkjunnar og þeirra presta sem þjónuðu þessi ár. Bókin er til á bókasafni Grunnskólans á Bakkafirði.

Nýlega fundust  um 1000 ár gamlar kristnar grafir stutt frá kirkjunni. Fleira bendir til þess að þarna hafi verið kirkja með prestsetri frá landnámi. Landnámsmaður jarðarinnar hét Hróðgeir Hvíti - og benti fræðimaðurinn og prófasturinn Sr. Sigmar Ingi Torfason á, að "hvíti" hefði merkinguna "kristinn maður" og að ekki væri mikið af skráðum heimildum af þessum slóðum - hugsanlega vegna þess að kristnir menn þarna hefðu "farið með friði", - þeir sem fóru með friði hefðu síður verið skráðir í Íslandssögurnar en þeir sem fóru með ófriði.

  Þorláksmessa er í dag - og því er við hæfi að minnast þess að Skeggjastaðakirkja var helguð Þorláki biskup helga á sínum tíma.

Staðurinn og kirkjan er rótgróin og dýrmæt menningararfleifð sem okkur verður ætíð skylt að hlúa að og vernda - og mun það verða gert.

Gleðilega jólahátíð

Kristinn Pétursson

http://www.kristinnp.blog.is/