Fara í efni

Fóstbræður í Þórshafnarkirkju á laugardag kl. 14

Fréttir Tónleikar

Karlakórinn Fóstbræður verður með tónleika í Þórshafnarkirkju á morgun, laugardaginn 25. maí nk. kl. 14:00.

Karlakórinn Fóstbræður er sá karlakór Íslands sem á lengstan samfelldan starfsaldur að baki en kórinn hefur starfað samfellt frá haustinu 1916 og hefur áratugum saman miðað aldur sinn við það ártal.

Frá stofnun og til ársins 1937 hét kórinn Karlakór KFUM og starfaði fyrst og fremst innan vébanda þess félags. Árið 1937 losnuðu tengslin við móðurfélagið og þá þótti mönnum rétt að undirstrika það með nafnbreytingu. Nafnið Fóstbræður er sótt til kvartetts sem starfaði í upphafi aldarinnar en meðal söngmanna þar var Jón Halldórsson fyrsti söngstjóri Karlakórs KFUM, síðar Fóstbræðra.

Undir þessu nýja nafni óx kórinn og efldist og hefur ávallt lagt ríkan skref til mótunar og framþróunar karlakórssöngs á Íslandi og mun gera áfram.

Söngstjóri Fóstbræðra, Árni Harðarson, lauk burtfararprófi í píanóleik frá Tónlistarskóla Kópavogs árið 1976. Hann stundaði framhaldsnám í píanóleik og tónsmíðum við The Royal College of Music London á árunum 1978 - 1983. Eftir að hann sneri heim hefur Árni verið virkur í íslensku tónlistarlífi sem kórstjóri, tónskáld og tónlistarkennari. Hann var stjórnandi Háskólakórsins árin 1983 - 1989 og var ráðinn söngstjóri Fóstbræðra haustið 1991. Auk þess að sinna tónsmíðum hefur Árni unnið að félagsmálum tónskálda og var m.a. formaður Tónskáldafélags Íslands 1995-1998. Hann var fulltrúi Íslands í NOMUS, Norrænu tónlistarnefndinni, frá 1993 - 2000. Árni er skólastjóri Tónlistarskóla Kópavogs og hefur verið söngstjóri Fóstbræðra í rúmlega tvo áratugi. Hann hefur einnig samið mörg lög fyrir kórinn og sömuleiðis útsett fjölda laga.