Fara í efni

Tundurdufl á Langanesi

 

Eins og segir í umfjölluninni um Skála, voru á árum seinni heimsstyrjaldar settar upp tundurduflgirðingar á siglingaleiðum úti fyrir Austfjörðum gegn kafbátahernaði þjóðverja. Það kom fyrir að dufl slitnuðu upp í óveðrum og ráku þau upp á land. Einhver þeirra sprungu og þar á meðal voru nokkur sem sprungu fyrir neðan byggðina á Skálum og ollu skemmdum á húsum og öðrum mannvirkjum. Varð þetta töluverð ógn fyrir íbúa.

Listamaðurinn Jóhann Ingimarsson eða Nói sem á ættir að rekja til Þórshafnar afhjúpaði listaverk sitt Tundurdufl sumarið 2011 en hann gerði einnig Valda Vatnsbera sem stendur í lystigarðinum. Tundurduflið stendur við Skoruvík á Langanesi. Nói sagði að verkið ætti hvergi betur heima en á Langanesi og við afhjúpun verksins rakti hann tildrög og forsögu verksins sem hann sagði að væri orðin löng. Hann sagðist vonast til þess að verkið ætti eftir að standa um aldur og ævi til að minna á styrjaldir og óheyrilega grimmd mannsins. Tundurduflið sem Nói notaði í verkið fékk hann hjá Landhelgisgæslunni en undirstöðurnar voru smíðaðar af nemendum Grunnskóla Þórshafnar sem gerðu það í verknámi.