Fara í efni

Skeggjastaðakirkja

Skeggjastaðakirkja er í Skeggjastaðaprestakalli í Múlaprófastsdæmi. Skeggjastaðir eru bær, kirkjustaður og prestssetur við Bakkafjörð á Langanesströnd. Kirkjan, sem nú stendur, er úr timbri, Skeggjastaðakirkja var byggð árið 1845 og er elst kirkna á Austurlandi eða 175 ára. Sr. Hóseas Árnason sem var prestur á Skeggjastöðum 1839-1859 stóð fyrir byggingu kirkjunnar.
Talið er, að Ólafur Briem timburmeistari á Grund í Eyjafirði hafi teiknað kirkjuna, en yfirsmiður var Guðjón Jónsson, snikkari á Akureyri. Kirkjan er úr rekaviði sem fluttur var frá Skálum á Langanesi, Hún tekur u.þ.b. 100 manns í sæti.
Þakið er úr timbri, rennisúð að utan en skarsúð að innan, póstaþil er inni. Það var enginn turn á kirkjunni upphaflega, en hann ásamt viðbyggingu bættist við, þegar hún var tekin til gagngerðrar viðgerðar 1961-62. Í viðbyggingunni er forkirkja og skrúðhús. Kirkjunni var lyft og hún stendur nú á steyptum grunni. Gréta og Jón Björnsson skreyttu hana og máluðu. Prédikunarstóllinn er danskur, líklega frá fyrri hluta 18. aldar. O. Knippel málaði altaristöfluna 1857.
Sr. Sigmar Ingi Torfason þjónaði söfnuðinum í 44 ár,  1944-1988.  Bók sr. Sigmars, Skeggjastaðir Kirkja og prestar 1591-1995 segir sögu kirkjunnar og þeirra presta sem þjónuðu þessi ár. Hægt er að lesa meira um kirkjuna hér http://langanesstrond.is/kirkjan.html

Skeggjastaðakirkja: Innandyra