Fara í efni

Skálar

Á Skálum á Langanesi eru minjar um líflegt þorp sem blómstraði á sínum tíma vegna útgerðar. Þorpið byggðist að mestu upp á fyrstu tveimur áratugum 20.aldar og bjuggu um 120 manns þar þegar mest var árið 1920. Þorpið varð löggiltur verslunarstaður árið 1912. Annað frystihúsið á landinu var reist á Skálum 1923 og var fiskur færður með sporvagni frá bryggju í húsið. Enn má sjá sporið fyrir vagninn og grunn frystihússins.
Ekki var fastur læknir á Skálum en hins vegar voru þar ljósmæður. Einnig var farskólahald öðru hverju. Kirkja var þar ekki en prestur á Sauðanesi annaðist kristnihald þar og árið 1924 var grafreiti komið upp á Skálabjargi og hvíla þar 20 manns.
Akvegur var enginn að og frá Skálum og tók gönguferð yfir að bænum Heiði ekki minna en sjö klukkutíma. Aðalsamgönguæðin var sjóvegur til Seyðisfjarðar og sími kom á staðinn 1927.

Skálar á Langanesi | Ísmús

Byggðin lagðist í eyði um og eftir miðja 20.öld. Ástæður fyrir því voru m.a. slæm lending fyrir báta og breytingar í útgerðarmálum og samgöngum. Árið 1930 skall líka á kreppa með tilheyrandi verðfalli.
Á stríðsárunum færðist aukið líf í byggðina á Skálum þegar byggð var ratsjárstöð fyrir ofan þorpið sem kallaðist Camp Greely og bandarískt herlið settist að í braggahverfi. Staðsetningin þótti einstaklega góð til að fylgjast með óvinaflugvélum út af Norðausturlandi. Þessu fylgdu framkvæmdir og tilbreyting fyrir þorpsbúa en hermennirnir komu sér m.a. upp bíói sem heimamönnum var boðið í. Eitt sinn þegar haldin var jólaskemmtun á Skálum komu hermennirnir með gjafir handa börnnum, sælgæti og leikföng og voru samskiptin milli þeirra og heimamanna yfirleitt vinsamleg. Áhrif frá stríðinu stuðluðu þó einnig að endalokum byggðarinnar á Skálum þar sem tundurduflagirðingar höfðu verið settar upp út af Austfjörðum en algengt var að dufl slitnuðu upp. Tvö tundurdufl sprungu veturinn 1941-1942 í fjörunni fyrir neðan byggðina og löskuðu hús og önnur mannvirki. Sumarið eftir það fluttu fjórar fjölskyldur burt og voru endalok byggðarinnar innsigluð. Sumarið 1946 héldu síðustu íbúarnir á braut, 25 talsins. Lúðvík og Jóhanna Hansen voru þó síðustu ábúendur á Skálum en þau voru þar við búskap á árunum 1948-1955 en síðan þau fóru þaðan um vorið 1955 hafa Skálar verið í eyði. Stærsti hluti íbúanna fluttist til Þórshafnar. 
Á Skálum eru skilti þar sem hægt er að fræðast frekar um sögu þorpsins og minjar vel merktar þar inn, einnig er salernisaðstaða fyrir ferðafólk. Upplýsingabækling um Skála má nálgast hér.
Skálastúfur var talinn vera draugur látins sjómanns af franskri fiskiduggu sem huslað var við túngarðinn á Skálum. Hann var stríðinn við heimamenn en yfirleitt meinlaus og aldrei sást hann í mannsmynd heldur eins og hnykill sem valt áfram. Algengasta hrekkjabragð hans var að standa í fjárhúsdyrum þegar láta átti inn sauðfé að kvöldi, vildi þá engin skepna ganga inn. Ekki varð hans vart aftur eftir að það ráð var tekið upp að reka nagla úr skipsflaki í leiði Stúfs. Yngri sögn segir einnig að búkurinn hafi verið grafinn upp og brenndur úti á Fonti og öskunni dreift í sjóinn.