Fara í efni

Sauðanes og Sauðaneshús

Sauðanes er um 7 km norðan við Þórshöfn og talið er að kirkjan þar hafi verið byggð fyrst á 11. öld. Sauðanes var lengi vel eitt eftirsóttasta brauð landsins þegar best lét og eitt af þremur höfuðprestsetrum Þingeyjarsýslna. Landið þótti gróðursælt og túnin góð, einnig hafði prestsetrið fríðindi af æðarvarpi og silungsveiði.
Á Sauðanesi er búið að breyta gamla prestsetrinu í safn og var það formlega opnað sem slíkt árið 2003. Sr. Vigfús Sigurðsson sem þjónaði á Sauðanesi lét reisa prestsetrið fyrir sig á árunum 1879-1881. Björgólfur snikkari og Sveinn múrsmiður Brynjólfssynir sáu um verkið og var húsið eitt af örfáum steinhlöðnum húsum á landinu. Í útidyraumbúnað og hurðir var notaður stór tekkbolur sem rak á land við Langanes.  Húsið er nú í eigu Þjóðminjasafnsins er er hluti af húsasafni þess.
Á safninu eru til sýnis ýmsir sögufrægir munir frá Langanesi og nágrenni og eftir skoðunarferð um safnið er hægt að setjast niður og fá sér vöfflur og kakó eða kaffi.