Fara í efni

Rauðanes

Rauðanes er einstök náttúruperla sem er að finna 30 km vestan við Þórshöfn en nesið teygir sig um 4 km norðaustur frá þjóðvegi. Þar liggur stikuð hringlaga gönguleið sem er u.þ.b. 7 km í heildina. Fuglalíf þar er mikið og fjölskrúðugt. Lundabyggð er að finna á stapa nokkrum út við nesið í björgunum og við fjöruna má einnig sjá fýl, svartbak og æðarfugl. Útsýnið er stórkostlegt og sést vel inn til heiða og eins út á Þórshöfn á góðviðrisdegi.
Það sem gerir Rauðanes einnig að náttúruperlunni sem það er eru þær afar fjölbreyttu bergmyndanir sem má sjá þar. Nesið hefur lyfst úr sjó eftir síðasta jökulskeið og því birtist þarna þversnið af ólíkum jarðmyndunum, stuðluð hraunlög, bólstraberg og setlög sem sjórinn hefur leikið um og skilið eftir hella, bása, strandberg, stapa og gatkletta.
Mælt er með því að fólk hafi með sér vatn í gönguna þar sem ekkert drykkjarvatn er að finna á nesinu og að sjálfsögðu að fylgja merktri gönguleið og ekki fara of nálægt brúninni.