Fara í efni

Ísbirnir

Frostaveturinn mikla 1918 rak mikinn hafís að landi fyrir vestan og norðan og siglingaleiðir tepptust. Hafísnum fylgdu gífurlegar frosthörkur eins og þekkt er en einnig fylgdu þeim ísbirnir. Heimildir eru um það að 27 bjarndýr hafi þá komist að landi og var allavega eitt þeirra á Langanesi.
Föstudaginn 18. janúar gekk Kristján Jónsson á Eldjárnsstöðum stuttan spöl frá bænum til brunns eftir vatni. Þá sá hann framundan sér ísbjörn sem kom askvaðandi á móti honum. Kristján tók strax á rás til bæjar en fannst honum björninn vera að ná sér. Ísbjörnin komst inn í bæinn og hefði líklegast náð Kristjáni ef ekki hefði verið fyrir tvo heimilishunda sem töfðu dýrið. Kristján komst inn í hliðargöng úr bæjardyrunum og eftir þeim inn í baðstofu sem var uppi á lofti. Þríbýlt var á þessum tíma á Eldjárnsstöðum og bættist fleira heimilisfólk í eltingaleikinn þegar það heyrði atganginn. Þar af fjórir menn sem höfðu verið við gegningar við fjárhúsin en þeir þorðu ekki inn í bæinn en fóru þess í stað upp á hann.
Jóhanna Aðalmundardóttir sýndi mikinn kjark og hafði hlaupið og látið þá vita. Urðu þeir varir við ísbjörninn þegar hann stakk hausnum út um gluggann á baðstofunni og svo kom hann allur út. Karlarnir tóku þá á rás og einn þeirra, Jónas Aðalmundarson, datt kylliflatur og í sama svipan gerði björninn sig líklegan til að ráðast á hann. Aftur var það hundur sem kom manninum til bjargar sem stökk á björninn, hundurinn hafði þó lítið í dýrið að gera og drap björninn hann. Á meðan ísbjörninn ráfaði úti voru bændur inni að nudda hita í byssur sínar og liðka þær en þær voru hálfryðgaðar og frosnar. Eltingaleikurinn endaði með því að Jón Jóhannesson skaut dýrið, það kom honum vel að þrír metrar voru á milli hans og dýrsins því byssan klikkaði þrívegis áður en skotið hljóp úr henni.
Þegar hræið var skoðað kom í ljós að dýrið hafði soltið lengi en það var aðeins 52 kíló og 1,63 m á lengd og garnir þess tómar.

Árið 2010 sást ung birna við Sævarland í Þistilfirði. Svanhvít Geirsdóttir varð þar birnunnar vör og flúði inn í bæinn og upp á háaloft en ísbjörninn var ekki nema 10 m frá henni. Hringdi hún og lét vita af dýrinu og hófst því leit að því. Birnan var felld þennan sama dag við eyðibýlið Ósland en hún var þá komin í námunda við sauðfé.