Fara í efni

Flugvélaflakið

Á Sauðanesi var gamli flugvöllurinn en flugvél hefur staðið á túninu síðan 1969 eða frá tímum bandaríska setuliðsins á Heiðarfjalli. Farþegaflugvél af gerðinni Douglas DC-3 (R4D-S) rak annan vænginn í flugbrautina við lendingu og við hnjaskið skemmdist hjólabúnaðurinn og vængurinn. Þessar vélar voru á sínum tíma með mest notuðu farþegavélum í heimi en svo tóku Fokkervélarnar við.
Það var nokkrum sinnum í umræðunni að flytja vélina burt eða gera við hana að utan en það er ekki auðvelt verk og var aldrei framkvæmt. Árið 1996 voru vængirnir þó fluttir suður. Í gegnum tíðina hefur fé bóndans á Sauðanesi leitað skjóls í vélinni þegar veður er vont en gaman er að gera sér ferð til að bera flakið augum. Vinsamlegast virðið tilmæli landeigenda og farið gangandi að flakinu, virðið fuglalíf og lokið hliðum vegna búfjár.